Ársskýrsla Origo 2017

Fjárhagur 2017

Vöru- og þjónustusala

F1-F4 2017

15.064 m.kr.

[F1-F4 2016: 14.788 m.kr.]

EBITDA

F1-F4 2017

928 m.kr. (6,2%)

[F1-F4 2016: 1.021 m.kr. (6,9%)]

Heildarhagnaður

F1-F4 2017

433 m.kr.

[F1-F4 2016: 383 m.kr.]

Handbært fé í árslok

F1-F4 2017

297 m.kr.

[F1-F4 2016: 872 m.kr.]

Veltufjárhlutfall

F1-F4 2017

1,3

[F1-F4 2016: 1,42]

Eiginfjárhlutfall

F1-F4 2017

41,6%

[F1-F 2016: 33,7%]

Gengi hlutabréfa Origo

Gögn: Keldan.is

Lausnaframboð Origo

Snertir öll svið upplýsingatækni

Hugbúnaðar-lausnir frá samstarfsaðilum

Eigin hugbúnaðarþróun

Innviðir upplýsingakerfa

Hýsing og rekstur

Tæknibúnaður til fyrirtækja og einstaklinga

Viðskiptalausnir

Ávarp forstjóra og stjórnarformanns

Finnur Oddson

Finnur Oddson,
forstjóri

Stöðugleiki á árinu en spennandi tímar framundan.

Árið 2017 var viðburðarríkt í rekstri og skipulagi Origo samstæðunnar og markaðist annarsvegar af ögrandi aðstæðum í rekstri og hinsvegar af töluverðum skipulagsbreytingum og fjárfestingum sem höfðu það að markmiði að treysta stöðu félagsins til framtíðar. Afkoma reyndist viðunandi, heldur betri en árið á undan, en síðasti fjórðungur er sá 16. í röð þar sem félagið skilar hagnaði. Þetta telst óvenju langt tímabil stöðugleika í sögu fyrirtækisins.

Ívar Kristjánsson

Ívar Kristjánsson,
stjórnarformaður

Apríl síðastliðinn markaði aldarfjórðungsafmæli Nýherja, en þá var hafinn undirbúningur að sameiningu Nýherja og dótturfélaganna Applicon ehf. og TM Software ehf. undir nafni Origo. Félögin voru svo sameinuð um síðustu áramót og nafni þeirra breytt í Origo. Sameining félaganna og nafnabreyting eru hvort tveggja liður í að styrkja félagið til framtíðar. Þarfir viðskiptavina Origo hafa þróast í takti við örar breytingar í upplýsingatækni og mikilvægi samþættingar innviða, vél- og hugbúnaðar, við þjónustu og ráðgjöf hefur aukist. Sameinað félag Origo er betur í stakk búið til að bregðast við þessum breyttu þörfum og þjóna viðskiptavinum betur, um flóknari og hagkvæmari lausnir, en ef félögin stæðu hvert í sínu lagi.

Fleiri markviss skref voru stigin til að treysta stoðir félagsins til framtíðar, en þar horfum við sem fyrr sérstaklega til mannauðs, þjónustugæða, lausnaframboðs og fjárhagslegrar stöðu. Þegar litið er um öxl, þá fór okkur fram á síðastliðnu ári og teljum við að Origo hafi sjaldan eða aldrei verið í betri stöðu til að kljást við áhugaverða framtíð í upplýsingatækni, viðskiptavinum okkar til heilla.

Ögrandi rekstur en sterkari fjárhagsstaða

Origo fór ekki varhluta af ögrandi rekstraraðstæðum á síðastliðnu ári, en rekstrarhagnaður dróst lítillega saman á milli ár. Skýringanna er fyrst og fremst að leita í innlendum kostnaðarhækkunum, einkum vegna launa, og minni tekjuvexti en undanfarin ár, m.a. vegna samdráttar í vélbúnaðarsölu og styrkingar íslensku krónunnar. Árangursríkar varnir gegn gengisáhættu styrktu hinsvegar niðurstöðu uppgjörs þannig að heildarhagnaður jókst frá fyrra ári og nam 433 mkr.

Stjórn Origo setti sér það markmið að ná eiginfjárstöðu félagsins yfir 40% til að tryggja viðunandi þol fyrir áföllum í rekstri og að sama skapi tryggja svigrúm til fjárfestinga í nýsköpun og lausnaþróun. Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum árum, en með stöðugum rekstri og jákvæðri afkomu hefur gefist færi á að greiða niður skuldir og bæta fjárhagsstöðu Origo. Undir lok árs 2017 var eiginfjárhlutfall 42% samanborið við 34% frá árinu á undan og í fyrsta skipti um langt árabil í samræmi við markmið stjórnar.

Stefna um útgreiðslu arðs tekur mið af mikilvægi stöðugrar þróunar og vaxtartækifæra í starfsemi upplýsingatæknifyrirtækja eins og Origo. Ekki er gert ráð fyrir útgreiðslu arðs að svo stöddu, enda teljum við að þannig treystum við tekjumyndun til framtíðar og um leið langtímavirði hluthafa í félaginu.

Starfsfólk og þjónusta skapar virði fyrir viðskiptavin og hluthafa

Undanfarin ár höfum við unnið eftir þeim leiðarljósum að Origo skapi sér sess sem leiðandi þjónustufyrirtæki, að við búum starfsfólki eftirsóknarverðasta vinnustaðinn í upplýsingatækni og við skilum auknu virði til hluthafa. Í þessum leiðarljósum felst skuldbinding gagnvart þremur mikilvægustu hagsmunaaðilum í okkar rekstri; viðskiptavinum, starfsfólki og eigendum. Við lítum þannig á að fjárfestingar okkar, hvort sem það er í innviðum, lausnaframboði eða aðbúnaði fyrir starfsfólk, eigi að fleyta okkur í átt að þessum þremur leiðarljósum og við höfum fylgst grannt með framvindu.

Eftirsóknarverður vinnustaður

Sem fyrr liggur okkar mesti styrkleiki í þeim öflugu hópi starfsfólks sem helgar viðskiptavinum Origo krafta sína. Síðastliðin ár hefur töluvert verið fjárfest í aðbúnaði starfsfólks og mannauðsferlum, m.a. til að styrkja starfsþróun, efla þekkingarstig og samræma hagsmuni starfsfólks og eigenda. Þessi vinna hefur skilað sér í aukinni ánægju starfsfólks Origo og dótturfélaga með fyrirtækin og starfsumhverfi. Virði þessarar þróunar fyrir Origo er verulegt, enda ljóst að geta fyrirtækisins til að þjóna viðskiptavinum er ávallt í réttu hlutfalli við þekkingu og reynslu starfsfólks. Samkvæmt bestu mælingum, m.a. ítarlegum vinnustaðargreiningum, hefur Origo eflt stöðu sína sem eftirsóknarverður vinnustaður og við merkjum það bæði á að okkur hefur gengið vel að halda öflugum sérfræðingum í upplýsingatækni og laða að nýja.

Fjárfest í lausnum

Á síðastliðnu ári og í upphafi þessa árs, höfum við nýtt sterkari stöðu félagsins til aukinna fjárfestinga í eigin lausnaþróun og kaupum nýjum lausnum og þekkingu sem fellur vel að þjónustuframboði okkar og þörfum viðskiptavina. Þarna má m.a. nefna áframhaldandi þróun og styrkingu á launa- og mannauðskerfi okkar Kjarna og gæðastýringarlausninni CCQ, sem nýtt er við innleiðingu gæðakerfa og GDPR. Þá höfum við þróað og keypt einingar sem nú mynda mest notaða bílaleigukerfi hérlendis, Caren, og á seinni hluta árs festi Origo kaup á rafrænu innkaupalausninni Timian og fengum til liðs við okkur frábæran hóp frá AGR sem bætir Dynamics NAV í annars öflugt mengi viðskiptalausna.

Við gerum ráð fyrir að leita frekari tækifæra til að efla þjónustuframboð Origo og horfum þar sérstaklega til einföldunar og sjálfvirknivæðingar viðskiptaferla, gagnagreiningar til ákvörðunartöku og stýringar upplýsingaöryggis. Sameining Nýherja og dótturfélaga undir merki Origo mun auka getu okkar til að sjá viðskiptavinum fyrir hagnýtum lausnum á þessum sviðum, þá gjarnan samþættar öðrum mikilvægum sviðum upplýsingatækni, t.d. rekstrarþjónustu og tæknibúnaði.

Tempo og Applicon: áframhaldandi vöxtur og tækifæri á erlendri grundu

Eins og undanfarin ár þá hefur dótturfélögum Origo, Applicon í Svíþjóð og Tempo, vegnað vel. Bæði munu starfa áfram undir sömu nöfnum og áður og þjóna þannig hópi alþjóðlegra viðskiptavina um sérhæfðar lausnir, annarsvegar á sviði viðskiptakerfa fyrir fjármálastofnanir og hinsvegar sviði verkefna- og tímastjórnunar.

Með stuðningi viðskiptalausna Origo, hefur Applicon markað sér sérstöðu með þekkingu á fjármálalausnum fyrir millistór fjármálafyrirtæki á Norðurlöndunum og er eftirspurn eftir ráðgjöf og þjónustu umfram það sem við getum annað. Í því sjáum við tækifæri til frekari uppbyggingar á næstu misserum, annarsvegar með því að bæta við þjónustuþáttum hjá núverandi viðskiptavinum og hinsvegar með því að bæta við nýjum. Það er einnig ánægjulegt, að með starfsemi Applicon í Svíþjóð, er Origo í raun að flytja út dýrmæta þekkingu á fjármálastarfsemi sem byggð hefur verið upp á síðustu 10-15 árum.

Rekstur Tempo gekk mjög vel á árinu, einkum á síðari hluta þess, en tekjur námu réttum 18 mUSD og jukust um tæp 40% á milli ára. Fyrri hluti árs markaðist af ögrandi breytingarverkefni, en um mitt ár lauk tæknilegri yfirfærslu þeirra viðskiptavina sem notað höfðu skýjalausn Tempo yfir á nýja vöru, Tempo Cloud for JIRA, sem byggir á eigin innviðum Tempo sem hýstir eru í skýi Amazon Web Services.

Til dagsins í dag, þá kaupa tæplega 12.000 viðskiptavinir Tempo lausnir félagsins í gegnum markaðstorg Atlassian (e. Atlassian Marketplace) sem viðbót við JIRA og JIRA Service Desk, gjarnan með stuðning yfir 120 samstarfsaðila Tempo um allan heim, sem styðja við sölu, innleiðingu og þjónustu á hugbúnaðinum hjá viðskiptavinum. Á síðasta ári þá komu um 60% af öllum nýjum tekjum í gegnum samstarfsaðila og Tempo Timesheets var ýmist í fyrsta eða öðru sæti yfir mest seldu lausnirnar á markaðstorgi Atlassian.

Þróun á Tempo Cloud for JIRA skapar Tempo margvísleg og spennandi tækifæri til framtíðar. Í fyrsta lagi, þá getum við nú sent viðskiptavinum uppfærðar og betri útgáfur vikulega ef svo ber við í stað 1-2 á ári eins og var. Hraði vöruþróunar er því allur annar en var, sem tryggir að við getum brugðist snarlega við þörfum viðskiptavina um eiginleika okkar lausna. Í öðru lagi, þá verða nú til tækifæri á auknum vexti með beinni sölu til viðskiptavina, óháð því hvort þeir nota JIRA frá Atlassian eða aðrar vinsælar skýjalausnir. Fyrstu skref í þess átt hafa þegar verið tekin, m.a. þegar Tempo kynnti í haust vöru fyrir Slack, sem er ein vinsælasta samskiptalausn í heimi.

Við gerum áfram ráð fyrir kröftugum tekjuvexti af sölu á Tempo lausnum á markaðstorgi Atlassian, en þar að auki er stefnt að því að Tempo muni afla fyrstu tekna á nýjum mörkuðum, utan Atlassian Marketplace, þá með tengingu við aðrar vinsælar skýjalausnir, á árinu 2018.

Um nokkur skeið hefur það verið mat stjórnenda Tempo og Origo, að töluverður ávinningur geti falist í samstarfi við fjárfesta sem hafa mikla reynslu af alþjóðlegri uppbyggingu hugbúnaðarfyrirtækja. Í samræmi við ráðgjöf sérfræðing hjá AGC Partners í Boston, var hinsvegar ákveðið að bíða með formlegt söluferli þar til mikilvægum stefnumótandi áföngum hefði verið náð, sér í lagi útgáfu Tempo Cloud for JIRA nú í haust. Í kjölfar þeirra, þá var ákveðið að hefja formlegt söluferli á verulegum hlut í Tempo í október síðastliðnum og leggja áherslu á finna til samstarfs aðila sem getur stutt enn frekar við tekjuvöxt og verðmætasköpun á næstu 3-5 árum. Þessi vegferð gengur samkvæmt áætlun og er gert ráð fyrir að því henni ljúki á fyrri hluta þessa árs.

Mikil fjölgun hluthafa

Það er ánægjulegt að áhugi fjárfesta á Origo hefur vaxið undanfarin misseri og ár. Markaðsvirði félagsins jókst um 34% á s.l. ári og nam þá ríflega 12 milljörðum króna og hluthöfum fjölgaði um 200 á árinu, en þeir voru í lok þess 587. Með bættum rekstri og fjárhagstöðu félagsins og með töluverðri fjölgun hluthafa, hefur viðskiptum með bréf félagsins fjölgað og að sama skapi hefur seljanleiki bréfa aukist, sem er mikilvægt öllum skráðum félögum. Við fögnum auknum áhuga á félaginu, sem við teljum verðskuldaðan og í samræmi við sterka stöðu samstæðunnar og þau fjölbreyttu vaxtartækifæri sem við horfum til framundan hér heima og erlendis.

Framtíðin er Origo

Ágætt jafnvægi hefur verið í rekstri Origo samstæðunnar á undanförnum árum. Fjárhagsstaða hefur ekki verið sterkari um langt skeið og áhersla hefur verið lögð á að treysta stoðir félagsins með fjárfestingu í þekkingu á mikilvægum sviðum upplýsingatækni, þróun eigin lausna og kaupum á rekstrareiningum. Á þessum grunni og með ötulu starfi samhents hóps starfsfólks á Íslandi, í Svíþjóð og N-Ameríku fyrir traustan hóp viðskiptavina, þá er ástæða til bjartsýni með það sem framundan er. Framtíðin er Origo.

Finnur Oddsson, forstjóri
Ívar Kristjánsson, stjórnarformaður

Skipurit

Stjórnendur

finnur-oddson.jpg

Finnur Oddsson

Finnur Oddsson er forstjóri félagsins. Hann tók við starfi aðstoðarforstjóra Nýherja í nóvember 2012 og við starfi forstjóra ágúst 2013.

Finnur starfaði um fimm ára skeið sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann er með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands, M.A. og Ph.D gráðu í sömu grein frá West Virginia University í Bandaríkjunum og auk þess AMP í viðskiptafræði frá IESE á Spáni.

Finnur starfaði um árabil sem lektor við Háskólann í Reykjavík og stýrði þar meðal annars uppbyggingu á MBA námi HR og Stjórnendaskóla HR. Hann sat í háskólaráði HR frá 2009 til 2017 og var formaður ráðsins til ársins til 2014. Finnur situr jafnframt í framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs Íslands.

drofn-gudmundsdottir.jpg

Dröfn Guðmundsdóttir

Dröfn Guðmundsdóttir er mannauðsstjóri félagsins, en hún hóf störf hjá Nýherja í febrúar 2013.

Dröfn hefur mikla reynslu á vettvangi mannauðsmála. Hún starfaði sem fræðslustjóri hjá Leikskólum Reykjavíkur og síðan sem mannauðsráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eftir sameiningu leik- og grunnskólamála frá 2003-2007, sem mannauðsráðgjafi hjá Straumi fjárfestingabanka frá 2007-2009, fræðslustjóri Arion banka frá 2009-2011 og starfað sem mannauðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu 2012-2013.

Hún lauk B.A. prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í sálfræði með áherslu á vinnu- og skipulagssálfræði frá Háskólanum í Giessen í Þýskalandi.

linda-bjork-waage.jpg

Linda Björk Waage

Linda Björk Waage er framkvæmdastóri Rekstrarþjónustu og innviða.

Linda hóf störf hjá Nýherja árið 2011 og hefur hún sinnt ýmsum lykilstörfum, nú síðast sem forstöðumaður þjónustuborðs og UT rekstrar.

Linda lauk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2009 og BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1997.

emil-g-einarsson.jpg

Emil G. Einarsson

Emil Einarsson er framkvæmdastjóri Notendalausna.

Emil starfaði frá 1985 til 1992 sem kerfisfræðingur, m.a. við innleiðingu og hönnun nýrrar gjaldkeralausnar fyrir banka/sparisjóði á Íslandi og síðan sem söluráðgjafi hjá IBM á Íslandi fyrir miðlungs- og stærri móðurtölvur.

Við stofnun Nýherja árið 1992 var Emil söluráðgjafi og hópstjóri til 1995 en frá þeim tíma var hann framkvæmdastjóri við sölu á IBM tölvubúnaði eða fram til febrúar 2005. Hann var framkvæmdastjóri Sölusviðs frá 2005-2011, framkvæmdastjóri Vörusviðs 2011-2014 og framkvæmdastjóri Viðskipta- og þjónustustjórnunar til ársins 2017.

Emil lauk viðskiptafræðiprófi af þjóðhagskjarna (Cand Oecon) árið 1982 og MBA prófi frá George Washington University 1984.

gunnar-mar-petersen.jpg

Gunnar Már Petersen

Gunnar Petersen er framkvæmdastjóri fjármála. Gunnar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, M.s.c í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og löggiltur verðbréfamiðlari.

Gunnar var fjármálastjóri Iceland Express hf. 2011-2012 og fjármálastjóri Landic Property hf. frá 2006 til 2010. Áður hafði Gunnar starfað sem viðskiptastjóri og sérfræðingur hjá HSH Nordbank í Kaupmannahöfn, Verðbréfastofunni hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf.

gunnar-soega.jpg

Gunnar Zoëga

Gunnar Zoëga er framkvæmdastjóri Viðskiptaframtíðar.

Gunnar hóf störf hjá TM Software árið 2003 og hefur síðan gegnt ýmsum störfum þar, hjá Skyggni og síðan hjá Nýherja, sem deildarstjóri Umsjár, framkvæmdastjóri Tæknisviðs og framkvæmdastjóri Lausna og þjónustu.

Gunnar lauk BS í viðskipta- og tölvunarfræði frá University of South Carolina og kerfisfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

hakon-sigurhansson.jpg

Hákon Sigurhansson

Hákon Sigurhansson er framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna. Hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá byrjun árs 2008, fyrst sem framkvæmdastjóri EMR heilbrigðislausna og síðar sem forstöðumaður Heilbrigðislausnasviðs TM Software.

Áður starfaði Hákon meðal annars sem sjálfstæður ráðgjafi, stýrði sölu- og vörustjórnunarsviði og síðar þróunarsviði Trackwell Software og var yfirmaður upplýsingatæknimála dómsmálaráðuneytisins.

Hann er með MBA-próf frá ESCP viðskiptaháskólanum í París og MSc-gráðu í rafeindaverkfræði frá Háskólanum í Álaborg.

ingimar-g-bjarnason.jpg

Ingimar G. Bjarnason

Ingimar G. Bjarnason er framkvæmdastjóri Viðskiptalausna. Áður var Ingimar framkvæmdastjóri Applicon á Íslandi frá 2008. Ingimar hóf störf á hugbúnaðarsviði Nýherja hf. í febrúarmánuði 1998 og starfaði þar og síðan hjá Applicon ehf. fram til ágústmánaðar 2006. Þá tók Ingimar við sem framkvæmdastjóri Applicon Solutions Ltd. í Bretlandi.

Ingimar lauk prófi í véla- og iðnverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og síðan MBA prófi frá IESE Viðskipta-háskólanum í Barcelóna 2003.

Framkvæmdastjórar dótturfélaga

tomas-wikstrom.jpg

Tomas Wikström

Tomas Wikström er framkvæmdastjóri Applicon í Svíþjóð frá 2012. Hann gekk til liðs við félagið árið 2000. Hann hefur gengt ýmsum störfum hjá félaginu á liðnum árum, þar á meðal sem fjármálastjóri þess. Þá hefur hann reynslu sem forritari og starfað við verkefnastýringu í fjármálageiranum.

Tomas er með M.Sc-gráðu í eðlisverkfræði frá háskólanum í Uppsölum.

agust-einarsson.jpg

Ágúst Einarsson

Ágúst Einarsson er framkvæmdastjóri TEMPO. Hann var framkvæmdastjóri TM Software frá 2007-2015. Hann var áður framkvæmdastjóri TrackWell Software, framkvæmdastjóri SAP og IBM deildar Nýherja.

Ágúst er með MS-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg og BS-gráðu í vélaverkfræði frá sama háskóla

Logo Origo

Vaxandi þjónustutekjur

Tekjur notendalausna

Tekjur Origo móðurfélags á árinu námu 12.632 mkr sem er tekjuaukning um 1,2% frá fyrra ári. Hjá Notendalausnum var stöðug eftirspurn eftir tölvubúnaði frá Lenovo sem hefur átt góðu gengi að fagna á íslenskum markaði undanfarin ár. Sala á hljóð og myndbúnaði frá framleiðendum á borð Bose, NEC, Sony og Canon var mjög góð, í beinni sölu til fyrirtækja, í gegnum endursöluaðila og einstaklinga í gegnum netverslun. Eftirspurn eftir skjálausnum og tengdri sérfræðiþjónustu hefur jafnframt aukist mikið undanfarin ár.

Tekjur rekstrarþjónustu og innviða

Hjá Rekstrarþjónustu og innviðum varð umtalsverð aukning í þjónustutekjum en vörusala dróst saman milli ára. Meiri áhugi er hjá fyrirtækjum á útvistun grunnrekstrar í UT, sem leiddi til þess að gengið var frá fjölda nýrra þjónustusamninga á árinu, m.a. við stóra nýja viðskiptavini eins og Arion og endurnýjun samninga við eldri viðskiptavini.

Velta samstæðunnar

Tekjuvöxtur viðskiptalausna

Origo Viðskiptalausnir (áður Applicon ehf.) sérhæfa sig í ráðgjöf, þjónustu og þróun á sviði viðskiptahugbúnaðar. Rekstur viðskiptalausna gekk vel á árinu. Tekjur námu 1.229 mkr og gott jafnvægi í rekstri einingarinnar. Ágæt eftirspurn var eftir þjónustu ráðgjafa og nýting betri en um nokkurt skeið. Áskriftartekjur jukust hratt og hlutfall þeirra af heildartekjum hækkaði verulega, bæði vegna eigin lausna (t.d. Kjarna, mannauðs- og launakerfis) og lausna frá samstarfsaðilum (t.d. SAP). Verkefnastaða er mjög góð og horfur í sölu á hugbúnaðarleyfum einnig.

30000_launþegar.png

2000_nota_timian.png

Tekjur viðskiptalausna

Á haustmánuðum síðasta árs festi Origo kaup á Timian Software ehf. sem þróar og innleiðir rafrænt beiðna- og innkaupakerfi sem tengir saman kaupendur og birgja og eykur þannig skilvirkni, gagnsæi og hagkvæmni við innkaup. Undir lok árs keypti Origo svo þann hluta starfsemi AGR Dynamics sem snýr að Microsoft Dynamics NAV og tengdum lausnum frá LS Retail og Cenium. Með þessum kaupum bættist öflugur hópur sérfræðinga í Origo teymið, en kaupin eru liður í því að efla framboð félagsins á sviði viðskiptalausna og tengja við aðrar lausnir (t.d. mannauðskerfi eða rekstrarþjónustu) til að ná fram meira hagræði og betri þjónustu í þágu viðskiptavina.

7.000 rafrænir lyfseðlar fara um kerfi Origo á hverjum degi

5.300 vörunúmer

Áhersla á vöruþróun hjá hugbúnaðarlausnum

Leiðandi í gagnaversþjónustu

Hugbúnaðarlausnir Origo (áður TM Software) leggja áherslu á þróun á eigin hugbúnaðarvörum og veita þjónustu og ráðgjöf fyrir sérhæfðar lausnir á þremur sviðum, sem eru heilbrigðislausnir, ferðalausnir og rafrænar þjónustulausnir. Tekjur TM Software námu 1.193 mkr á árinu 2017 en samanlagðar tekjur nýs sviðs hugbúnaðarlausna námu 2.133 mkr.

Origo þróar Ölmu

Nokkrar breytingar hafa orðið í rekstri ferðalausnasviðs og rafrænum þjónustulausnum. Hjá ferðalausnum hefur aukinn þungi verið lagður í vöruþróun, m.a. með kaupum á hugbúnaðarlausn Dacoda fyrir bílaleigur og samþættingu við flotastýringar- og leiðsögukerfið Driver Guide sem þróað hefur verið af Origo. Samsett lausn sem er markaðssett undir nafninu Caren, heildarlausn fyrir bílaleigur af öllum stærðum, er í dag mest notaða bílaleigukerfi á Íslandi.

150 tæknimenn

140 fyrirtæki í prentþjónustu

Eftir sameiningu TM Software ehf. og Nýherja hf. undir Origo bætist hugbúnaðarhópur Nýherja hf. við teymi rafrænna þjónustulausna sem áður tilheyrðu TM Software. Þannig samnýtist þekking og reynsla beggja hópa við þróun og þjónustu hugbúnaðarlausna, t.a.m. sjálfsafgreiðslulausnir fyrir hraðbanka og verslanir, öryggislausnir á borð við QRadar og CCQ sem er gæðastýringarlausn í skýinu. Góð eftirspurn var eftir þessum lausnum á síðastliðnu ári, enda leika öryggis- og gæðamál æ mikilvægara hlutverk í daglegum rekstri fyrirtækja, sérstaklega þegar kemur að upplýsingatækni.

Orgio stærst á markaði

Origo er leiðandi í þróun hugbúnaðarlausna á heilbrigðissviði, en þær byggja á traustum grunni frá 1993 þegar þróun Sögu sjúkrarskrár hófst. Saga og tengdar lausnir eru notaðar af þúsundum heilbrigðisstarfsmanna á öllum helstu heilbrigðisstofnunum og fyrirtækjum landsins, allt frá sjúkrahúsum til apóteka. Rekstur heilbrigðislausna gekk vel á síðasta ári.

100 fyrirtæki í UT þjónustu

Tekjur hugbúnaðarlausna

Fjárfesting í þróun eigin hugbúnaðarlausna var óvenju mikil á árinu, en gert er ráð fyrir að hún muni skila sér í vexti reglulegra áskriftartekna strax á árinu 2018. Verkefnastaðan er góð og horfur í rekstri Hugbúnaðarlausna Origo eru ágætar.

Stöðugildi: 427

Logo Tempo

Góður tekjuvöxtur og uppbygging til framtíðar

Tempo þróar samnefnda tímaskráninga- og verkefnisstjórnunarlausn sem hefur átt vaxandi vinsældum að fagna undanfarin ár.

Tekjur Tempo námu 17,9 mUSD á árinu 2017

Eins og fyrr vinnur Tempo náið með yfir 120 samstarfsaðilum að sölu og þjónustu á hugbúnaðinum, en um 60% af nýjum tekjum kemur fyrir tilstuðlan samstarfsaðila. Hjá Tempo vinna tæplega 100 starfsmenn, þar af 33 í Montreal og San Francisco.

Viðskiptavinir Tempo kaupa lausnir félagsins í gegnum markaðstorg Atlassian (e. Atlassian Marketplace) sem viðbót við JIRA og JIRA Service Desk. Tempo Timesheets var í desember mest selda lausnin á markaðstorginu og voru hinar lausnir Tempo, þ.e. Planner og Budget, einnig á lista yfir þær mest seldu. Viðskiptavinir telja nú yfir 11.300, af öllum stærðum og gerðum, í öllum atvinnugreinum og fleiri en 110 löndum.

Tempo kynnti í september Tempo Cloud for JIRA, sem og samtengingar við vinsælar skýjaþjónustu. Nýja lausnin byggir á eigin skýjaumhverfi Tempo á Amazon Web Services, sem felur annars vegar í sér nýjar leiðir til vöruþróunar og hins vegar möguleika á auknum vexti með beinni sölu til viðskiptavina, óháð því hvort þeir nota JIRA frá Atlassian eða aðrar skýjalausnir. Undir lok árs kynnti Tempo vöru fyrir Slack, sem er ein vinsælasta samskiptalausn í heimi, en þannig geta notendur Slack jafnframt nýtt sér virkni Tempo Timesheets.

Mikil vinna var lögð í að flytja viðskiptavini sem nota skýlausn Tempo yfir á Tempo Cloud for JIRA og tryggja aukin gæði vörunnar við þá breytingu. Undir lok árs sá fyrir endann á öllum tæknilegum hindrunum og aukin áhersla þá lögð á sölustarf miðað við það sem var á fyrri hluta árs. Góður tekjuvöxtur á síðasta ársfjórðungi endurspeglar annars vegar árangur af þessu starfi og hins vegar góðar viðtökur við nýrri útgáfu af skýjalausn Tempo. Áfram er gert ráð fyrir kröftugum tekjuvexti af sölu á Tempo lausnum á markaðstorgi Atlassian, en þar að auki er stefnt að því að Tempo muni afla fyrstu tekna á nýjum mörkuðum, utan Atlassian Marketplace, á árinu 2018.

Síðastliðið ár hefur fjárfestingabankinn AGC Partners verið til ráðgjafar um mögulega sölu á félaginu til fjárfesta sem geta stutt við frekari tekjuvöxt og verðmætasköpun. Í október síðastliðnum var formlegt söluferli hafið og gert ráð fyrir að Origo selji verulegan eignarhlut til samstarfsaðila sem þekkja vel til uppbyggingar fyrirtækja í alþjóðlegri hugbúnaðarstarfsemi. Söluferlið gengur samkvæmt áætlun og miðað er við að því ljúki á fyrrihluta árs.

Stöðugildi: 84

Logo Applicon

Aukin eftirspurn á fjórða ársfjórðungi

Applicon í Svíþjóð sérhæfir sig í ráðgjöf og innleiðingu viðskiptakerfa fyrir banka og fjármálafyrirtæki og vinnur m.a. að umfangsmiklum verkefnum fyrir sænsku bankana SBAB Bank og Landshypotek Bank. Heildartekjur Applicon Í Svíþjóð voru SEK 87 mkr og standa nokkurn vegin í stað á milli ára.

Tekjur Applicon í Sviþjóð

Applicon hefur skapað sér mikla sérstöðu með þekkingu á fjármálalausnum fyrir millistór fjármálafyrirtæki á Norðurlöndunum. Eftirspurn eftir ráðgjöf og þjónustu hefur verið umfram það sem fyrirtækið hefur getað annað og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Horfur eru góðar.

Stöðugildi: 58

Mannauður

Stöðugildi og kynjahlutfall

Fjöldi starfsmanna

Þegar horft er til samstæðunnar í heild var nokkur fjölgun í hópi starfsmanna á árinu. Í upphafi árs var fjöldi stöðugilda hjá samstæðunni 546 en í lok árs voru stöðugildin 563. Stöðugildum fjölgaði því um 17 á árinu þegar litið er til samstæðunnar.

Kynjahlutfall í samstæðunni skiptist þannig að 26% starfsmanna eru konur og 74% karlar og er þetta sama hlutfall og á undangengnu ári. Það hefur loðað við upplýsingatæknigeirann að karlar hafa verið í meirihluta, en samstæðan hefur einsett sér með skýrri stefnu og framkvæmdaáætlun jafnréttismála að vinna áfram að því langtímamarkmiði að því að fjölga konum innan samstæðunnar.

Sameinað félag

Félögin Nýherji, TM Software og Applicon undirbjuggu sameiningu félagsins undir einu flaggi á árinu og voru starfsmenn talsvert teknir með í þá vinnu. Settir voru á laggirnar þrír starfshópar sem studdu við sameiningu félaganna. Einn hópurinn vann að tillögum að verkefnum sem höfðu með sameiningu kerfa, ferla og menningu að gera, annar hópur vann að tillögum um lausnarframboð sameinaðs félags og þriðji hópurinn vann að undirbúningi nýs vörumerkis og stóð sá hópur m.a. fyrir nafnasamkeppni innanhúss um tillögur að nafni fyrir sameinað félag. Einnig voru haldnir rýnihópar, viðhorfskannanir gerðar og opnar vinnustofur haldnar til að draga sem flesta að undirbúningu sameinaðs félags.

Þekking, hæfni og fyrsta flokks þjónusta

Starfsmenn með háskólapróf

Uppbygging þekkingar er sameiginlegt hagsmunamál starfsfólks fyrirtækisins og er ávallt lögð miklil áhersla á að starfsfólk hafi tækifæri til að efla faglega og persónulega hæfni sína.

Samhliða áherslum í þjónustu var lögð sérstök áhersla á þjónustuþjálfun hjá fyrirtækinu líkt og undanfarin ár. Einnig var lögð sérstök áhersla á fræðslu tengt nýrri persónuverndarlöggjöf á árinu og sóttu nánast allir starfsmenn félagsins fræðslu til að efla vitund um persónuvernd.

Einnig voru rafræn námskeið innleidd á árinu. Rafrænar fræðsluleiðir henta einstaklega vel í nýliðakynningum þar sem tekið var á móti um 80 nýjum starfsmönnum hjá Origo og dótturfélögum á árinu 2017 og mikil áhersla lögð á það að allir starfsmenn fái kynningu á fyrirtækinu á fyrstu dögum í starfi. Gerðar eru miklar kröfur um öryggisvitund starfsmanna og fóru allir starfsmenn Origo í gegnum rafræna fræðslu á árinu til að efla þekkingu á því sviði.

Hreyfing, heilsa og vistvænar samgöngur

Starfsmenn Origo og samstæðunnar eru duglegir þegar kemur að hreyfingu, vistvænum samgöngum og keppnum sem tengjast hreyfingu eins og undanfarin ár. Árið 2017 byrjaði með heilsuátaki þar sem starfsmenn tóku þátt í heilsutengdum keppnum og skráðu hreyfingu sína í gegnum snjallforrit. Samhliða var boðið upp á ótal hreyfiviðburða og fyrirlestra um heilsu sem vöktu lukku.

Fjöldi starfsmanna tók sem fyrr þátt í Hjólað í vinnuna og Origo átti 10 manna lið í WOW Cyclothon keppninni líkt og fyrr og náði liðið glæsilegum árangri.

Origo styrkir starfsmenn sína líka til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu og tóku rúmlega 70 starfsmenn þátt í hlaupinu í ár og hlupu samtals um 970 km og safnaði starfsfólk okkar ríflega 485 þúsund til góðgerðarmála. Samstæðan lagði til 500 kr á hvern km sem fólk hljóp.

Einnig tók fjöldi starfsmanna þátt í skemmtilegasta hlaupi ársins, The Color Run, en Origo var meðal styrktaraðila þeirrar keppni.

Starfsmenn Origo og dótturfélaga eru einnig duglegir að stunda vistvænar samgöngur. Á árinu 2017 voru um 120 starfsmenn með virka samgöngusamninga eða um fjórðungur starfsmanna.

Græn skref

30% starfsmanna nota vistvænar samgöngur

Origo er eitt af þeim fyrirtækjum á Íslandi sem hefur undirritað yfirlýsingu um loftlagsmál og þannig skuldbundið sig til að vinna að aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúslofttegunda og minnka myndun úrgangs. Origo er auk þess með virka stefnu um samfélagslega ábyrgð og umhverfisstefnu, þar sem græn markmið fyrirtækisins eru nánar útfærð.

Félagslíf og aðstaða

Hjá samstæðunni starfar skemmtilegur hópur fólks sem tekur virkan þátt í því öfluga framboði af viðburðum sem boðið er upp á. Bæði eru starfsmannafélögin og klúbbarnir innan samstæðunnar mjög virkir auk þess sem fyrirtækið stendur reglulega fyrir viðburðum. Meðal starfsmannaviðburða á árinu má nefna vel heppnaða árshátíð, vorferðir, golfmót, fjölskyldudag, haustfagnað, jólahlaðborð og fleira.

Vinnustaðagreining framkvæmd

Vinnustaðagreining var framkvæmd hjá félögum samstæðunnar líkt og fyrri ár. Yfir 90% starfsmanna tóku þátt í könnuninni, en markmiðið er að greina hvað vel er gert og hvað má betur fara í starfsumhverfi innan samstæðunnar. Niðurstöður könnunarinnar voru virkilega ánægjulegar og erum við að standa okkur býsna vel á öllum lykilmælkvörðum. Langtímamarkmið okkar er að vera einn eftirsóknaverðasti vinnustaður í upplýsingatækni á Íslandi og sýndu niðurstöður könnunarinnar 2017 að við þokumst í rétta átt.

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn

Stjórn Origo hf. samanstendur af fimm stjórnarmönnum og einum varamanni, sem kjörnir eru árlega á aðalfundi. Á stjórnarfundi 21. desember 2016 var Ívar Kristjánsson kjörinn formaður, Hildur Dungal varaformaður og Guðmundur Jóh. Jónsson kom inn sem aðalmaður í stjórn. Ívar Kristjánsson og Emilía Þórðardóttir voru kjörin ný í stjórn félagsins á aðalfundi í mars 2016. Hildur Dungal kom í stjórn 2011 og hefur verið varaformaður frá því í mars 2013. Loftur Bjarni Gíslason var kjörinn í stjórn á aðalfundi félagsins í mars 2014. Guðmundur Jóhann Jónsson hefur verið í stjórn og varastjórn frá árinu 1999. Hjalti Þórarinsson var kosinn í varastjórn á aðalfundi 3. mars 2017.

Efri röð frá vinstri: Loftur Bjarni Gíslason, Finnur Oddsson (forstjóri) Hjalti Þórarinsson og Hildur Dungal.
Neðri röð frá vinstri: Emelía Þórðardóttir, Ívar Kristjánsson og Guðmundur Jóhann Jónsson.

Stjórn Origo fjallar reglubundið um stjórnarhætti og heldur árlega sérstakan fund um störf stjórnar og stjórnarhætti. Stjórnin telur mikilvægt að stjórnarhættir séu stöðugt endurmetnir til að mæta breyttum lögum og reglum og þróun á sviði stjórnunar og stjórnarhátta.

Stjórnarhættir

Stjórn Origo hf. leitast við að viðhalda stjórnarháttum og fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“, sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út í endurskoðaðri útgáfu í júní 2015.

Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og verksvið gagnvart forstjóra. Í þeim er meðal annars að finna reglur um fundarsköp, fundargerðir stjórnar, ítarlegar reglur um hæfi stjórnarmanna til þátttöku við afgreiðslu mála og reglur um þagnarskyldu. Þar eru einnig reglur um upplýsingagjöf forstjóra gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar, en undirritun meiri hluta stjórnarmanna skuldbindur félagið.

Núgildandi starfsreglur stjórnar voru samþykktar á stjórnarfundi 24. maí 2017 og eru þær aðgengilegar á vef félagsins, www.origo.is.

Stjórn hefur skipað endurskoðunarnefnd og eru reglur nefndarinnar aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Í endurskoðunarnefnd eiga nú sæti stjórnarformaður, meðstjórnandi og utanaðkomandi löggiltur endurskoðandi. Meginhlutverk og ábyrgð nefndarinnar er að hafa eftirlit með vinnuferlum við gerð reikningsskila, fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits félagsins, innri endurskoðun og ef við á áhættustýringu og öðrum eftirlitsaðgerðum.

Auk þess leggur nefndin fram tillögur til stjórnar um val á endurskoðanda félagsins auk þess að meta óhæði endurskoðanda og hafa eftirlit með störfum hans. Stjórn hefur jafnframt skipað starfskjaranefnd og tækninefnd sem eru stjórn og stjórnendum til ráðgjafar um starfskjarastefnu og mál er tengjast launastefnu og tæknilegu umhverfi Origo. Regluvörður, skipaður af stjórn, hefur umsjón með að reglum um innherjaupplýsingar og að viðskiptum innherja sé fylgt. Stjórn hefur ekki skipað tilnefningarnefnd, en við endurskoðun á starfsháttum stjórnar og umgjörð um starfið er það nú mat stjórnar að skipa beri slíka nefnd og liggur fyrir tillaga um slíkt á aðalfundi.

Á árinu 2017 voru haldnir 15 stjórnarfundir og 6 fundir í endurskoðunarnefnd, auk funda í starfskjaranefnd og tækninefnd. Meiri hluti stjórnar og nefnda hefur mætt á alla fundi. Endurskoðunarnefnd boðar endurskoðendur félagsins á fundi þegar tilefni er til, auk þess sem þeir mæta á stjórnarfundi vegna ársuppgjörs.

Stjórn Origo hf

Samkvæmt samþykktum félagsins fer stjórn Origo hf. með æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda. Stjórnin ákveður stefnu Origosamstæðunnar og fylgir eftir meginverkefnum í starfsemi samstæðunnar. Fyrir stjórn er lögð rekstrar- og fjárfestingaáætlun til staðfestingar og fylgist stjórnin reglubundið með framvindu þeirra áætlana innan ársins. Stjórn ákveður skipulag og fylgir því eftir að starfsemi félagsins fari fram í samræmi við samþykktir hennar. Stjórnin skal tryggja að nægilegt eftirlit sé með meðferð fjármuna félagsins og að góð regla sé á bókhaldi og uppgjöri.

Í stjórn Origo sitja fimm menn og einn til vara og er stjórnin kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Samkvæmt samþykktum skulu þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins tilkynna það skriflega til stjórnar að minnsta kosti fimm sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar og eru þeir einir kjörgengir, sem þannig hafa gefið kost á sér. Formaður kveður stjórn til fundar og stýrir stjórnarfundum. Fundi skal halda hvenær sem formaður telur þess þörf, en að auki er honum skylt að boða stjórnarfund að kröfu eins stjórnarmanns eða forstjóra. Stjórnarfundir eru því aðeins lögmætir að mættir séu þrír stjórnarmenn eða fleiri.

Hlutverk forstjóra

Stjórn Origo hf. ræður forstjóra félagsins og ákveður starfskjör hans. Forstjóri er ábyrgur fyrir daglegri starfsemi félagsins í samræmi við samþykktir þess, stefnu og ákvörðun stjórnar. Forstjóri skal vinna að stefnumótun og framþróun félagsins ásamt því að skipuleggja og fylgja eftir daglegum rekstri þess. Þá er hlutverk forstjóra að tryggja að starfsemi félagsins sé í samræmi við gildandi löggjöf og reglur hverju sinni og fylgja því eftir að starfsemi dótturfélaga sé með sama hætti.

Hluthafafundir

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra hluthafafunda. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok júnímánaðar ár hvert og hluthafafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu kjörins endurskoðanda eða hluthafa, sem ráða að minnsta kosti 1/20 hlutafjár í félaginu. Krafa um hluthafafund skal gerð skriflega, fundarefni tilgreint og fundur þá boðaður innan lögmæts frests. Til hluthafafundar skal boða með birtingu auglýsingar í dagblaði eða með öðrum sambærilegum hætti. Aðalfund skal boða með minnst þriggja vikna og mest fjögurra vikna fyrirvara samkvæmt breytingum á hlutafélagalögum frá 19. desember 2009. Í fundarboði skal gerð grein fyrir fundarefni og þeim skjölum og tillögum sem lögð verða fyrir fundinn. Á hluthafafundum fylgir eitt atkvæði hverjum hlut í félaginu.

Breytingar á samþykktum félagsins

Samþykktum félagsins má einungis breyta á löglegum hluthafafundi þess og skal þess rækilega getið í fundarboði að fyrir liggi tillaga um breytingar á samþykktum og í hverju hún felist í meginatriðum. Ákvörðun verður því aðeins gild að hún njóti minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða svo og samþykkis hluthafa sem ráða 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Síðast voru gerðar breytingar á samþykktum Origo hf. þann 30. janúar 2018.

Endurskoðendur

Endurskoðendur félagsins eru kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn. Á aðalfundi 2017 var KPMG ehf. kjörinn endurskoðandi félagsins og er KPMG ehf. einnig endurskoðandi allra dótturfélaga félagsins á Íslandi. KPMG annast endurskoðun á dótturfélögum í Svíþjóð og í Kanada.

fyrirmyndar_fyrirtæki.jpg

fyrirmyndar_fyrirtæki.jpg,
Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Origo er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum samkvæmt mati Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, að undangenginni ítarlegri úttekt Capacent 2015.

Umhverfismál

Origo hefur sett sér umhverfisstefnu sem tekur til allrar starfsemi Origo og dótturfélaga auk allra starfsmanna samstæðunnar. Starfsmenn og stjórnendur samstæðunnar skulu kynna sér efni stefnunnar og framfylgja henni, auk þess að leita leiða til umbóta í umhverfissmálum. Framfylgja skal öllum lagakröfum á sviði umhverfismála í starfssemi samstæðunnar. Með umhverfisstefnunni skuldbindur samstæðan sig til að vinna markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar.

Origo er eitt af þeim fyrirtækjum á Íslandi sem hefur undirritað yfirlýsingu um loftslagsmál og þannig skuldbundið sig til að vinna að aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúslofttegunda og minnka myndun úrgangs. Notast er við hugbúnað til að mæla vistspor fyrirtækisins og setja markmið í umhverfismálum fyrir fyrirtækið. Origo hvetur starfsmenn til vistvænna ferðmáta, m.a. með því að veita þeim samgöngustyrki sem ferðast ekki á einkabílum og hefur félagið einnig sett sér sérstaka samgöngustefnu í þessum efnum. Allt sorp sem fellur til, bæði á skrifstofu félagsins og lager, er flokkað í viðeigandi flokkunartunnur. Félagið hefur tekið stór skref í útrýmingu einnota umbúða sem voru áður í tíðri notkun en notkun á einnota umbúðum fór úr 140.000 umbúðum árið 2015 niður í 12.000 umbúðir árið 2016. Félagið notar eigin lausn, RentaPrent, þar sem lögð er áhersla á að draga úr sóun á pappír.

Samfélagsleg mál

Samfélagsleg ábyrgð skiptir Origo miklu máli og hefur félagið unnið að því að auka samfélagslega ábyrgð sína með margvíslegum hætti. Samfélagsstefna félagsins hefur verið römmuð inn í tengslum við ungt fólk, menntun og nýsköpun, sem hafa verið grunnþættir í þeim verkefnum sem félagið hefur styrkt um nokkurt skeið. Samfélagsstefna félagsins byggir á þessum áherslum en er nánar útfærð til að taka til fjögurra meginstoða, sem eru: Góðir stjórnarhættir, mannauður, umhverfi og styrkir við góð málefni.

Meðal verkefna sem styrkt hafa verið eru: Háskóli unga fólksins, Forritunarkeppni framhaldsskólanna á vegum HR, Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema í Háskóla Íslands, Forritarar framtíðarinnar, First Lego hönnunarkeppnin, Verkefni Samtaka iðnaðarins um kynningu náms í tæknigreinum háskóla fyrir framhaldsskólanemum.

Starfsmannamál

Origo hefur sett sér margvíslegar stefnur til að stuðla að sem bestu umhverfi fyrir starfsmenn sína. Í mannauðsstefnu fyrirtækisins kemur fram að þekking starfsmanna ásamt góðum starfsanda og starfsánægju skipi höfuðsess hjá Origosamstæðunni. Starfsmenn og velferð þeirra eru þungamiðja þess að samstæðan dafni og þroskist, öllum til hagsbóta. Ýmsar mælingar eru gerðar til að fá upplýsingar um stöðu þeirra atriða sem mannauðsstefnan tekur til. Þar má nefna reglulegar vinnustaðagreiningar, frammistöðusamtöl og aðrar úttektir.

Markmið jafnréttisstefnu fyrirtækisins er að tryggja jöfn tækifæri starfsmanna. Stefna fyrirtækisins er að gæta fyllsta jafnréttis óháð aldri, kyni, litarhætti, skoðunum, þjóðerni, trúarbrögðum, kynhneigð eða fötlun, þannig að hver starfsmaður verði metinn á eigin forsendum. Ofbeldi eða áreitni, hvort sem er andlegt eða líkamlegt, líðst ekki og getur varðað brottvikningu úr starfi. Sá starfsmaður sem verður fyrir slíkri áreitni skal leita til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra eða trúnaðarmanna til að koma málinu í farveg. Við meðhöndlun slíkra mála er farið eftir sérstakri viðbragðsáætlun sem er aðgengileg öllum starfsmönnum félagsins.

Starfskjarastefna félagsins um starfskjör stjórnenda og starfsmanna hefur það að markmiði að laða að og halda í mjög hæft starfsfólk. Í stefnunni segir að kyn og aðrir persónueiginleikar sem ekki tengjast inntaki starfs eða frammistöðu í starfi skulu ekki hafa áhrif á laun eða launaþróun. Til að tryggja sanngirni og samræmi í launamálum hafa stjórnendur aðgang að miðlægum viðmiðum um launabyggingu félagsins á hverjum tíma og launaþróun á ytri markaði.

Starfskjarastefna var lögð fram á aðalfundi Origo hf. 3. mars 2017 og samþykkt.

Spilling, mútur og mannréttindi

Starfsfólk Origo hefur sett sér siðareglur sem varða almenna viðskiptahætti og viðskiptasiðferði. Reglurnar vísa til væntinga um vinnulag gagnvart viðskiptavinum, samstarfsfólki, eigendum, samkeppnisaðilum og samfélagi. Í reglunum kemur fram að heiðarleiki og ótvíræð samskipti séu lykilatriði góðs viðskiptasiðferðis. Allir viðskiptaaðilar Origo eiga rétt á réttlátri og sanngjarnri meðferð í anda jafnræðisreglu. Starfsmönnum ber að gera viðvart um atvik, þar sem ætla má, að lög séu brotin. Slíkt ber að gera við yfirmann eða til yfirstjórnar fyrirtækisins beint. Starfsmenn munu á engan hátt gjalda þess í starfi séu þeir að uppfylla skyldu sína í þessu efni og er trúnaðar gætt, sé þess óskað. Starfsmaður skal ekki þiggja gjöf, þjónustu, skemmtun eða persónulegan greiða sem með réttu mætti álykta að gæti haft áhrif á viðskipti. Boð um skemmtun ætti ekki að þiggja nema boðið sé innan marka viðurkenndrar viðskiptagestrisnis. Fái starfsmenn tilboð eða jafnvel hótanir í tengslum við störf sín ber viðkomandi að tilkynna það yfirmanni sínum strax.

Stjórn Origo hf. leitast við að viðhalda stjórnarháttum og fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út. Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og verksvið gagnvart forstjóra. Origo er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum samkvæmt mati Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, að undangenginni ítarlegri úttekt Capacent á haustmánuðum 2014.

Félagið virðir almenn mannréttindi, rétt allra til félagafrelsis og kjarasamninga. Því til stuðnings hefur félagið sett sér jafnréttisstefnu og siðareglur eins og fjallað var um hér fyrir framan. Áhersla er lögð á að verktakar og undirverktakar fari eftir gildandi lögum í landinu er varðar alla sína starfsmenn, sama hvort það eru þeirra launþegar eða eigin undirverktakar.

Stærstu hluthafar Nýherja 31.12.2017

587 hluthafar

Vogun hf. 50.308.800 11,0%
Lífeyrissjóður verslunarmanna 46.119.303 10,1%
Birta lífeyrissjóður 45.084.074 9,8%
Kvika banki hf. 38.486.640 8,4%
The Wellington Trust Company Na 31.162.092 6,8%
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 19.957.907 4,4%
Landsbankinn hf. 17.580.480 3,8%
Arion banki hf. 12.286.833 2,7%
HEF kapital ehf 11.784.086 2,6%
IS Hlutabréfasjóðurinn 10.796.398 2,4%
The Wellington Trust Company Na 10.057.909 2,2%
Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. 9.344.708 2,0%
Stapi lífeyrissjóður 8.508.780 1,9%
Sigríður Vilhjálmsdóttir 8.497.982 1,9%
Lífsverk lífeyrissjóður 6.728.005 1,5%
Varðberg ehf 6.021.789 1,3%
Íslandsbanki hf. 6.017.273 1,3%
Júpíter - Innlend hlutabréf 5.174.192 1,1%
GBV 17 ehf. 5.117.159 1,1%
Hólmur ehf 5.066.480 1,1%